Maka- og barnalífeyrir A deildar

Makalífeyrir
Þegar sjóðfélagi andast og lætur eftir sig maka á lífi á hinn eftirlifandi maki rétt til lífeyris úr sjóðnum. Upphæð makalífeyris er helmingur af áunnum ellilífeyrisrétti hins látna sjóðfélaga.

Makalífeyrir hækkar síðan um 20% af launum þeim er hann miðast við ef hinn látni sjóðfélagi hefur verið í fullu starfi við starfslok, en hækkunin verður hlutfallslega lægri ef sjóðfélaginn hefur verið í lægra starfshlutfalli við starfslok.  Viðbótarlífeyrir þessi greiðist þó einungis ef hinn látni sjóðfélagi hefur uppfyllt eitt af þremur eftirgreindum skilyrðum:

  1. Hann hafi verið í starfi er veitti honum aðild að sjóðnum við andlátið.
  2. Hann hafi hafið töku lífeyris fyrir andlátið
  3. Hann hafi greitt iðgjöld til sjóðsins sem nemur iðgjaldagreiðslum af fullu starfi í 15 ár eða meira og ekki greitt iðgjald til annars sjóðs eftir að greiðslum til þessa sjóðs lauk.

Nú hefur sjóðfélagi gengið í hjónaband eftir að hann var orðinn 60 ára eða á þeim tíma er hann naut lífeyris úr sjóðnum eða hann var lagstur banaleguna og úrskurðar þá stjórn sjóðsins hvort eftirlifandi maki hans skuli njóta lífeyris úr sjóðnum eða eigi.  Réttur til lífeyris fellur niður ef hinn eftirlifandi maki gengur í hjónaband að nýju en kemur aftur í gildi sé hinu síðara hjónabandi slitið enda veiti hið síðara hjónaband eigi rétt til lífeyris úr sjóðnum. Veiti síðara hjónabandið einnig rétt til lífeyris má eftirlifandi maki velja um hvort hann tekur lífeyrinn eftir fyrri eða síðari makann.

Barnalífeyrir
Börn og kjörbörn sem sjóðfélaginn lætur eftir sig er hann andast og yngri eru en 18 ára skulu fá lífeyri úr sjóðnum þar til þau eru fullra 18 ára að aldri enda hafi hinn látni séð um framfærslu þeirra að nokkru eða öllu leyti. Sama gildir um börn og kjörbörn er maður lætur eftir sig er naut eftirlauna eða örorkulífeyris úr sjóðnum er hann andaðist.  Ef barnið á foreldri eða kjörforeldra á lífi er sér um framfærslu þess er samanlagður lífeyrir þess frá almannatryggingum og úr þessum sjóði 50% hærri en barnalífeyrir almannatrygginga. Að öðrum kosti er lífeyririnn tvöfaldur barnalífeyrir almannatrygginga.  Sama rétt öðlast börn og kjörbörn þeirra sjóðfélaga er njóta eftirlauna eða örorkulífeyris úr sjóðnum.  Barnalífeyrir úr þessum sjóði til barna eða kjörbarna örorkulífeyrisþega skal vera jafnmargir hundraðshlutar af fullum barnalífeyri og örorkulífeyrir hans er margir hundraðshlutar af hámarksörorkulífeyri. Fósturbörn er sjóðfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti njóta sama réttar og börnum og kjörbörnum er veittur hér að framan.