Maka- og barnalífeyrir B-deildar

Makalífeyrir
Nú andast sjóðfélagi sem naut elli- eða örorkulífeyris úr B-deild sjóðsins eða greitt hafði iðgjald til hennar a.m.k. 24 mánuði á undanfarandi 36 mánuðum og lætur eftir sig maka og á þá maki hans rétt á lífeyri úr sjóðnum, enda hafi hann verið orðinn 35 ára að aldri við fráfall sjóðfélagans, hjúskapur staðið a.m.k. í 5 ár og til hans stofnað áður en sjóðfélaginn náði 60 ára aldri.  Láti sjóðfélagi eftir sig barn innan 19 ára aldurs, sem hann hefur átt með eftirlifandi maka sínum, skal þó makalífeyrir veittur án tillits til hjúskapartíma og aldurs sjóðfélaga og maka hans. Sama gildir ef makinn hefur á framfæri sínu barn sem sjóðfélaginn hafði áður á framfæri sínu. Kjörbarn þeirra veitir sama rétt. Enn fremur skal makalífeyrir veittur án tillits til hjúskapartíma og aldurs sjóðfélaga og maka hans ef trúnaðarlæknir eða tryggingalæknir telur makann vanta 50% eða meira á fulla starfsorku meðan það ástand varir. 

Upphæð makalífeyris er hundraðshluti af grundvallarfjárhæð eins og hún er fyrsta dag hvers mánaðar, sem lífeyrir er greiddur og og nemur hundraðshluti þessi samanlögðum stigafjölda sem sjóðfélaganum er reiknaður, margfölduðum með 0,825.  Auk áunninna stiga skal telja með þau stig sem ætla má að sjóðfélaginn hafi áunnið sér fram til 67 ára aldurs en þó skal aldrei miða meðaltal stiga við fleiri almanaksár en þau sem sjóðfélaginn hefur greitt iðgjöld. Hafi sjóðfélaginn notið örorkulífeyris úr sjóðnum skal reikna stig frá þeim tíma er honum var veittur örorkulífeyrir og til þess tíma er makalífeyrir er veittur, í samræmi við stig þau sem lögð voru til grundvallar örorkulífeyri. Veiti dauðsfall hinum eftirlifandi maka jafnframt rétt til lífeyris úr öðrum sjóði skal hann því aðeins fá lífeyri úr þessum sjóði vegna ókomins tíma að hann hafi síðast greitt iðgjöld til þessa sjóðs. 

Maki telst sá eða sú sem við andlátið var í hjúskap með sjóðfélaga, staðfestri samvist eða óvígðri sambúð, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlát sjóðfélaga. Með óvígðri sambúð er átt við sambúð karls og konu sem eiga sameiginlegt lögheimili, eru í samvistum, eiga barn saman eða konan þunguð eða sambúðin varað samfleytt í a.m.k. tvö ár. Heimilt er að greiða makalífeyri til aðila sem sannanlega hefur annast heimili sjóðfélaga um árabil fyrir andlát hans. Réttur til makalífeyris fellur niður ef makinn gengur í hjónaband á ný eða stofnar til sambúðar sem jafna má til hjúskapar, en gengur aftur í gildi ef síðara hjónabandinu eða sambúðinni er slitið án réttar til lífeyris.

Barnalífeyrir
Nú andast sjóðfélagi, sem greitt hefur iðjgöld til sjóðsins í a.m.k. 24 mánuði á undanfarandi 36 mánuðum eða notið úr honum elli- eða örorkulífeyris við andlátið og eiga þá börn hans eða kjörbörn, sem hann lætur eftir sig og yngri eru en 19 ára, rétt á lífeyri úr sjóðnum til 19 ára aldurs.  Veiti fráfall sjóðfélagans börnunum jafnframt rétt til lífeyris úr öðrum lífeyrissjóði, skal lífeyrir úr þessum sjóði þó bundinn því skilyrði að sjóðfélaginn hafi síðast greitt iðgjöld til þessa sjóðs. 

Fullur barnalífeyrir vegna fráfalls sjóðfélaga er kr. 7.500 ,- m.v. grunnvísitölu 173,5 stig með hverju barni fyrir hvern almanaksmánuð. Fjárhæð þessi breytist í hlutfalli við breytingu á grundvallarfjárhæð. Fullur barnalífeyrir greiðist ef árleg stig eru a.m.k. 1 stig. Séu áætluð stig færri, lækkar barnalífeyrir frá sjóðnum hlutfallslega og fellur niður ef árlegur stigafjöldi er minni en 0,5 stig.  Barnalífeyrir greiðist til framfæranda barns.