Örorkulífeyrir A-deildar

Hver sjóðfélagi sem greitt hefur iðgjöld til sjóðsins á rétt á örorkulífeyri ef hann verður fyrir orkutapi er tryggingayfirlæknir metur 10% eða meira. Örorkumat þetta skal aðalega miðað við vanhæfni sjóðfélaga til að gegna starfi því er hann hefur gegnt og aðild hans að sjóðnum er tengd.  Þrátt fyrir örorku á engin rétt á örorkulífeyri meðan hann heldur fullum föstum launum fyrir starf það er hann gegndi eða fær jafnhá laun fyrir annað starf sem veitir lífeyrissjóðsréttindi og aldrei skal örorkulífeyrir vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi sem sjóðfélaginn hefur sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar.  Hámark örorkulífeyris miðast við áunnin lífeyrisrétt til eftirlauna í A-deild. Hafi sjóðfélaginn greitt iðgjöld til sjóðsins undanfarin 3 almanaksár og a.m.k. í 6 mánuði á undanfarandi 12 mánuðum miðast hámark örorkulífeyris þó við þennan áunna lífeyrisrétt að viðbættum einstaklingslífeyri almannatrygginga.  Ef rekja má aðalorsök örorkunnar til starfs í þágu stöðu þeirrar sem öryrkinn gegndi síðast skal þó reikna áunnin lífeyrisrétt eins og sjóðfélaginn hefði gegnt stöðu sinni til 65 ára aldurs og skulu áunnin lífeyrisréttindi þá reiknast af launum í því starfi sem sjóðfélaginn gegndi síðast eins og þau eru á hverjum tíma.