Iðgjöld til B-deildar

Samanlögð iðgjöld sjóðfélaga í B-deild hvert almanaksár skulu umreiknuð í stig er mynda grundvöll lífeyrisréttinda hans í B-deild.  Til grundvallar stigaútreikningi skal grundvallarfjárhæð í janúar 1996 vera kr. 49.084,- og breytist hún mánaðarlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar frá 174,2 stigum. Verði grundvöllur þessi að dómi sjóðstjórnar ónothæfur mælikvarði, skal hún ákveða annan stigagrundvöll svo og tengingu hans við fyrri grundvöll. Sama gildir ef stigagrundvöllur sem ákveðinn hefur verið af sjóðstjórn reynist síðar ónothæfur. 

Stig ársins reiknast þannig að deilt skal í 10-föld iðgjöld sem greidd hafa verið vegna hlutaðeigandi sjóðfélaga, með grundvallarfjárhæð ársins samkvæmt 3. mgr. Við útreikning lífeyris reiknast áunnin stig að fullu. Ef um maka eða örorkulífeyri er að ræða skal reikna að fullu stig þeirra 30 ára sem hagstæðust eru fyrir sjóðfélagann, en að hálfu stig annarra ára, þó skal aldrei miðað við færri stig en áunnin eru. Ekki skal reikna stig eftir lok þess mánaðar, er sjóðfélagi nær 70 ára aldri. Iðgjöld sem berast af sjóðfélaga sem náð hefur 70 ára aldri skulu endurgreidd.